Tengslanet og uppsprettur nýsköpunartækifæra

Útdráttur

Nýsköpun og þróun nýrra viðskiptatækifæra er grundvöllur hagsældar og framsækinna samfélaga. Hugmyndaauðgi skapandi einstaklinga skiptir miklu máli, en rannsóknir hafa sýnt fram á að uppsprettur nýsköpunartækifæra liggja að miklu leyti í því umhverfi sem skapandi einstaklingar lifa og starfa í. Verðmætustu tækifærin verða þannig til þegar fólk tengir saman hugmyndir úr mismunandi áttum í sínu tengslaneti á nýjan hátt. Markmið þessa verkefnis var að hanna, þróa og prófa frumgerð að hugbúnaðarlausn til að safna upplýsingum um tengslanet, samskipti og boðleiðir innan nýsköpunarfyrirtækja. Með því að greina hvaða áhrif þessir þættir hafa á nýsköpun og hugmyndaauðgi er hægt að skilja betur uppsprettur nýsköpunartækifæra og hjálpa nýsköpunarfyrirtækjum að bæta árangur sinn. Verkefnið byggir á niðurstöðum rannsókna innan tengslanetagreiningar (e. social network analysis) og nýsköpunar (e. innovation) og styður einnig við áframhaldandi rannsóknir. Öllum helstu markmiðum verkefnisins var náð og eru prófanir á lausninni þegar hafnar.

Sumarið 2020 unnu nemendur að því að hanna hugbúnað sem greinir tengslanet innan nýsköpunarfyrirtækja og fékk verkefnið styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna. Markmið verkefnisins var að hanna, þróa og prófa frumgerð að hugbúnaðarlausn, sem gerir mögulegt að safna upplýsingum um tengslanet, samskipti og boðleiðir nýsköpunarfyrirtækja, greina áhrif þessara þátta á nýsköpun og hugmyndaauðgi, og hjálpa fyrirtækjum að bæta starfsemi sína.

Nýsköpunargildi verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða nýja lausn sem gagnast einstökum nýsköpunarfyrirtækjum beint við að skipuleggja og byggja upp nýsköpunarstarf sitt, bæta upplýsingaflæði og auka nýsköpunarvirkni. Slík lausn var ekki til áður og því ótvírætt virði af því fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki að geta nýtt hana við skipulag sinnar starfsemi. Hins vegar mun lausnin verða mikilvæg við áframhaldandi rannsóknir á þætti tengslaneta í nýsköpun og þannig auka skilning á því hvaða aðferðir skila bestum árangri þegar kemur að því að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki og nýsköpunarumhverfið. Mikils virði er að rannsaka betur hvernig niðurstöður nýjustu rannsókna eiga við í því litla og opna nýsköpunarumhverfi sem Ísland er.

Aðferðarfræði

Aðferðafræðin sem var höfð að leiðarljósi í þessu verkefni var tilgátudrifin nýsköpun. Sú aðferðarfræði snýr að því að ítra jafnt og þétt, til að skilja þarfir og viðhorf mögulegra notenda. Rætt við nokkur sprotafyrirtæki til að kanna áhuga þeirra á að skilja betur tengslanet og boðleiðir. Eftir að frumgerðir voru tilbúnar voru þær kynntar fyrir nýsköpunarfyrirtækjum sem gætu nýtt sér lausnina.

Rannsóknarsniðið sem varð fyrir valinu er notendaþróun (e. customer development) en það er formleg aðferðarfræði til að þróa sprotafyrirtæki og nýjar hugmyndir í fyrirtækjaþróun (Blank og Dorf, 2012). Rannsóknarsniðið gerir ráð fyrir því að í byrjun hafi rannsakendur óprófaðar tilgátur um viðskiptamódel eins og; hverjir eru viðskiptavinirnir, hvaða eiginleika vilja þeir, hvaða leið á að fara, hvernig á að halda í viðskiptavini o.s.frv. Notendaþróun hefst með lykilhugmyndinni að það séu engin svör við tilgátunum til staðar innan veggja svo það er hafst handa við að fara út úr húsi og hitta viðskiptavinina til að prófa þær og hefja svokallaða tilgátuprófun.

Framkvæmd

Nemendur undirbjuggu sig í upphafi með því að fara yfir lesefni sem tengdist verkefninu. Á fyrsta fundi nemenda með umsjónarmanni var hugmyndin rædd og mótuð og hlutir eins og í hvaða umhverfi viðmótið yrði hannað í og með hvaða hætti samskipti færu fram. Framkvæmd verkefnisins var unnin í fjórum þrepum: Undirbúningur, hönnun og skipulag þróunar, þróun hugbúnaðar og söfnun og greining upplýsinga. Námsmenn stýrðu vinnunni sjálfir en umsjónarmaður verkefnisins kom að verkefninu með því að leiðbeina námsmönnum, þá helst varðandi áherslur og forgangsröðun verkþátta. Umsjónarmaður hjálpaði námsmönnum að komast í samband við starfsmenn nýsköpunarfyrirtækja og veitti almenna ráðgjöf og stuðning. Við vinnuna var byggt á aðferðum notendaþróunar (e. customer development) og agile hugbúnaðarþróunar (e. agile software development). Í báðum þessum aðferðum er lögð áhersla á að vinna þétt með notendum (starfsmönnum og stjórnendum nýsköpunarfyrirtækja) og að setja sem fyrst og sem tíðast virkandi lausnir í loftið í formi nothæfra frumgerða.

Notendasögur voru samdar fyrir fyrsta sprettinn og skiptu nemendur þeim á milli sín. Nemendur kynntu sér hýsingarmöguleika og hvaða tegund gagnagrunns yrði notaður. Veigamikill þáttur í verkefninu var að skilgreina þarfir kerfisins, bæði varðandi notendaviðmót og varðandi þær upplýsingar sem mikilvægast er að safna og greina og var það gert á fyrstu fundum við möguleg samstarfsfyrirtæki. Fyrstu drög að útlitsfrumgerð voru búin til og hittu nemendur starfsmenn nokkurra nýsköpunarfyrirtækja og sýndu þeim frumgerðina og fengu ábendingar um hvað væri gagnlegt og hvað mætti betur fara, auk þess að ræða um tengslanet og boðleiðir innan nýsköpunarfyrirtækja.

Nemendur héldu áfram að þróa hugbunaðarlausnina með Agile verkefnastjórnunaraðferðum. Unnið var í vikulöngum sprettum og notast var við Kanban töflu í skipulagsforritinu Trello til að halda utan um notendasögur og stöðu þeirra í vinnuferlinu og verkþáttum var skipt niður í smærri verkefni. Að lokum lögðu lokahönd á þróun hugbúnaðarlausnarinnar og útbjuggu lendingarsíðu sem kynnir verkefnið fyrir almenningi.

Viðmót

Til að gera kleift að kynna kerfið með gögnum sem litu eðlilega út án þess að ógna trúnaði við notendur var sett upp sérstakt sýndarfyrirtæki, „The Good Ideas Company“ og hafði að fyrirmynd sögu Thomas Alva Edison og uppfinningum hans. The Good Ideas Company hafði alls 20 starfsmenn sem störfuðu í þremur deildum, hver við sína uppfinningu. Uppfinningarnar þrjár voru ljósaperan (e. light bulb), myndavélin (e. camera) og hljóðritinn (e. phonograph). Starfsmenn fyrirtækisins eiga sér allir fyrirmynd í raunverulegum starfsmönnum í fyrirtækjum sem voru stofnuð af Thomas Edison.

Í upphafi ferlisins þá fær starfsmaðurinn sendan tölvupóst sem inniheldur auðkenningarhlekk inn í kerfið. Þegar starfsmaðurinn hefur fylgt hlekknum þá er hann sjálfkrafa skráður inn í kerfið. Að loknum leiðbeiningum og upplýstu samþykki birtast spurningarnar koll af kolli og hægt er að fara fram og til baka milli spurninga. Fyrsta spurningin fjallar til dæmis um hvaða samstarfsmann starfsmaðurinn er í mestum samskiptum við varðandi dagleg störf innan fyrirtækisins.



Ef notandinn þarf frá að hverfa getur hann vistað svörin og haldið áfram seinna. Þegar lokið hefur verið við spurningalistann er ýtt á “Finish” takkann og upp sprettur gluggi sem spyr hann hvort hann sé viss um að hann sé búinn að klára og upplýsir hann um að það sé ekki hægt að breyta svörum eftir að þau hafa verið vistuð. Velji hann “OK” þá fær hann upp glugga sem segir honum að svörin hafi verið vistuð og svo þakkir fyrir þátttökuna. Starfsmaðurinn er sjálfkrafa skráður út úr kerfinu þegar hann klárar og ekki hægt að komast inn í kerfið aftur eftir það.

Á fundum með notendum fékkst endurgjöf á viðmót söfnunarhluta verkefnisins. Nemendur fylltu líka út spurningalistann fyrir starfsmenn sýnarfyrirtækisins, sem gerði kleift að greina og kynna niðurstöður könnunarinnar fyrir mögulegum notendum, til að fá endurgjöf á fyrirkomulag greiningarinnar og mögulegan ávinning af henni. Ýmsar niðurstöður voru settar fram og kynntar, meðal annars var mögulegt að sýna hvernig samskiptanetið leit út í samkvæmt þessum ímynduðu niðurstöðum.



Umræður

Markmið verkefnisins var að hanna, þróa og prófa frumgerð að hugbúnaðarkerfi til að safna upplýsingum um tengslanet, samskipti og boðleiðir nýsköpunarfyrirtækja, greina áhrif þessara þátta á nýsköpun og hugmyndaauðgi, og hjálpa þannig fyrirtækjum að bæta starfsemi sína. Í upphafi var fundað með fyrirtækjum til að sannreyna að þörf væri á slíkum hugbúnaði og hvort fyrirtæki hefðu áhuga á að átta sig betur á samskiptum og tengslum innan fyrirtækjanna. Snemma í ferlinu var ljóst að sá áhugi lá fyrir, og byrjað var á þróun frumgerðarinnar með aðferðum tilgátudrifinnar nýsköpunar.

Í ferlinu náðust öll helstu markmið verkefnisins og frumgerð lausnarinnar tilbúin til gagnasöfnunar og greiningar fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Sett var upp lendingarsíða til kynningar á verkefninu þar sem farið er yfir helstu atriði verkefnisins og lausnarinnar. Prófanir á lausninni eru þegar hafnar og verða raunupplýsingar um tengslanet fyrirtækja greindar með því markmiði að bæta starfsemi og nýsköpunarvirkni þeirra.

magnus

Dr. Magnús Þór Torfason

Dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

erna

Erna Guðrún Sigurðardóttir

Hugbúnaðarverkfræði MSc

maggy

Maggý Helga Jóhannsdóttir Möller

Verkefnastjórnun MSc